*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 23. maí 2020 12:02

Seðlabankastjóri valinn á Pæjumótinu?

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru ekki á einu máli um skipun seðlabankastjóra árið 2014.

Ingvar Haraldsson
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, voru ekki á einu máli um hvernig haga ætti skipun seðlabankastjóra þegar fyrsta skipunartímabili Más Guðmundssonar sem seðlabankastjóra lauk árið 2014, samkvæmt því sem fram kemur í bókinni „Afnám haftanna – samningur aldarinnar?“ eftir Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar árin 2013 til 2017. Hæfisnefnd taldi þremenningana Má Guðmundsson, Friðrik Má Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, og Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. hæfasta í starfið. Skipunin var formlega á forræði Bjarna.

Funduðu í húsnæði Sparisjóðsins

Sigurður Már segir frá því í bókinni að Sigmundur Davíð hafi fengið pata af því að Bjarni hafi haft í huga að skipa Friðrik Má í byrjun ágúst. Sigmundi leist illa á það og ákvað því að funda með Bjarna um málið. Bjarni var þá staddur á Pæjumótinu á Siglufirði með dóttur sinni. Sigmundur ákvað því að keyra til Siglufjarðar þar sem þeir funduðu í húsnæði Sparisjóðs Siglufjarðar.

Framganga Friðriks Más í Icesave-málinu og aðildarviðræðum við ESB hafi orðið þess valdandi að Sigmundi hugnaðist ekki skipun Friðriks. Sigmundi hafi litist betur á að skipa Ragnar Árnason sem var einn þeirra ráðgjafa sem tóku þátt í undirbúningi Leiðréttingar húsnæðislána árið 2013. Bjarni hafi verið mótfallinn því. Niðurstaðan hafi því verið að endurráða Má, en ráðast um leið í endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands þannig að seðlabankastjórar yrðu þrír á ný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér