Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í dag að halda stýrivöxtum áfram föstum á milli 0% og 0,25%, þar sem þeir hafa verið frá því í desember 2008.

Mikil eftirvænting var eftir blaðamannafundi Seðlabankans og var búist við því að seðlabankastjórinn Janet Yellen myndi loksins kynna fyrstu vaxtahækkunina frá því eftir hrun.

Seðlabankinn sagðist þó vilja halda áfram ferlinu í átt að fullri atvinnu og verðstöðugleika og taldi því best að hliðra ekki vöxtunum. Markmið bankans er full atvinna og 2 prósent verðbólga og gaf bankinn ekkert upp um það hvenær vextir yrðu hækkaðir.

Ríkisskuldabréf ruku upp í verði og dollarinn féll niður í sitt lægsta gengi í margar vikur í kjölfar ákvörðunar Seðlabankans.