Evrópski seðlabankinn gæti ákveðið að taka upp neikvæða stýrivexti eða kaupa eignir af bönkum til þess að auka verðbólgu þannig að hún nái verðbólgumarkmiði. Þetta hefur WallStreet Journal eftir yfirmanni úr seðlabankanum. Ársverðbólga á evrusvæðinu var 0,7% í október, sem er nokkru lægra en verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu. Markmiðið er 2%.

Peter Praet, sem sæti á í bankaráði Seðlabankans, útilokar ekki að eignir bankanna verði keyptar til þess að draga úr lánskostnaði fyrirtækja í einkageiranum. „Það er hægt að ganga á efnahagsreikning Seðlabankans,“ sagði Praet í samtali við Wall Street Journal.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í 0,25% á fimmtudag í síðustu viku og hafa þeir aldrei verið lægri.