Pólitísk óvissa, lækkanir á lánshæfismati evruríkja og efasemdir um styrk banka á evrusvæðinu gerir ástandið á evrusvæðinu afar eldfimt. Seðlabanki Evrópu birti í dag rit um fjármálastöðugleika á svæðinu og segir að smithætta vegna opinbera skulda nokkurra evruríkja sé alvarlegasta ógnin við stöðugleika innan evrusvæðisins, Evrópusambandsins og jafnvel heimsins.

Financial Times fjallar um málið í dag. Blaðið segir að lýsingar seðlabankans endurspegli áhyggjur af framgangi stjórnmálanna. Hingað til hefur ráðamönnum ekki tekist að leysa vandann eða auka trú á framtíð evrusvæðisins.

Samkvæmt Seðlabanka Evrópu er ástandið á skuldabréfamarkaði jafn viðkvæmt í dag og það var eftir fall bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers á árinu 2008. Markaðurinn er einnig viðkvæmari en hann var í maí 2010, þegar evrukrísan náði áður óþekktum hæðum.

Í skýrslunni er ekki tekið fram hvaða ríki er átt við þegar talað er um „smithættu“. Talið er líklegt að þar sé meðal annars átt við Kýpur og Belgíu. Stórir gjalddagar eru á lánum þessara ríkja á næsta ári.