Seðlabanki Íslands hefur fallið frá allri veðtöku í fjármálagerningum VBS fjárfestingabanka og greitt þrotabúi bankans tæplega 540 milljónir króna. Til viðbótar mun þrotabúið fá hátt í 200 milljónir króna til viðbótar frá dótturfélagi bankans, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þetta þýðir að VBS mun geta greitt allar forgangskröfur, haldið málaferlum sem hafin eru til streitu og hraðað slitum bankans. Þetta þýðir líka að kröfur Seðlabankans í búið lækka um þrjá milljarða króna og að þær verða að öllu leyti almennar kröfur.

Slitastjórn VBS hafnaði í júní allri veðtöku Eignarsafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), dótturfélags Seðlabankans, í eignum búsins á grundvelli þess að Seðlabankinn hafi vitað vel að VBS var ógjaldfær á þeim tíma sem hann tryggði sér veð í eignunum á kostnað annarra kröfuhafa.

Tryggðu sér veð

Þann 29. ágúst síðastliðinn var haldinn fundur vegna ágreinings ESÍ og VBS. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þar hafi náðst samkomulag um að ESÍ myndi falla frá allri veðtöku í fjármálagerningum VBS sem framkvæmd hefði verið eftir 1. desember 2008. Slitastjórnin hafði hafnað þeirri veðtöku í afstöðubréfi sem hún sendi til ESÍ 16. júní síðastliðinn á þeim grundvelli að veðsetningarnar hefðu verið „ótilhlýðilegar ráðstafanir til hagsbóta fyrir Seðlabankann og ríkissjóð og til röskunar á jafnræði kröfuhafa bankans og því riftanlegar“.

Auk þess taldi slitastjórnin að 26,4 milljarða króna lán ríkissjóðs Íslands til VBS í mars 2009, sem bankinn notaði til að lifa fram í marsbyrjun 2010, hafi verið sýndargerningur. Seðlabankinn og ríkissjóður hefðu vísvitandi dregið að setja VBS í þrot til að sölsa undir sig veð í nánast öllum eignum hans á kostnað annarra kröfuhafa.

Halda Kaupþingskröfu

Samkomulagið sem náðist á sáttarfundinum í lok ágúst hefur það í för með sér að allar kröfur ESÍ á bankann verða almennar og lækka úr 29,8 milljörðum í 26,5 milljarða króna. Væntar endurheimtir ESÍ úr búi VBS lækka því mjög mikið við gerð samkomulagsins.

ESÍ fær hins vegar fá eignarrétt yfir almennri kröfu í bú Kaupþings sem VBS hafði veðsett bankanum upp á 7,9 milljarða króna. Þá mun ESÍ halda eftir innstæðum VBS  í Seðlabankanum sem eru leifar af endurhverfum viðskiptum bankans. Fyrir þetta mun ESÍ greiða búi VBS 538 milljónir króna auk þess sem möguleiki er á allt að 200 milljóna króna greiðslu til viðbótar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins lét ESÍ sérfræðinga meta kröfuna á Kaupþing. Niðurstaða þeirra var að markaðsgengi hennar væri 11% af nafnvirði hennar, eða 867,5 milljónir króna án söluþóknunar.

Getur greitt forgangskröfur

Slitastjórnin fær á móti fé til að gera upp allar forgangskröfur í búið, þar með taldar launakröfur. Þá mun hún geta haldið málaferlum sem búið er að setja í gang áfram, en þau sem þegar eru hafin gætu skilað búinu um fimm milljörðum króna. Þar ber hæst að riftun á 4,3 milljarða króna tilfærslur til skilanefndar Landsbankans og uppgjör VBS á 2,5 milljarða króna skuld við Tryggingarmiðstöðina sem fram fór í janúar 2010.

Samkomulagið við ESÍ gerir það líka að verkum að eignir VBS eru ekki lengur veðsettar á pappírnum og þau auðveldar því alla umsýslu þeirra. Það þýðir líka að deilan þarf ekki að leysast fyrir dómstólum, sem hefði getað orðið langt ferli.

Ítarlega er fjallað um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.