Kanadískir aðdáendur leikarans Leonard Nimoy, sem þekktastur er fyrir að hafa farið með hlutverk Spock í Star Trek, hafa undanfarna daga farið heldur óvenjulega leið við að heiðra minningu hans, en hann lést síðastliðinn föstudag. Hafa þeir þannig tekið upp á því að teikna Spock á peningaseðla landsins.

Á peningaseðlunum er mynd af Sir Wilfrid Laurier, fyrsta frönskumælandi ráðherra Kanada, en þannig vill til að ekki þarf nema örlitlar breytingar á útliti hans til þess að breyta honum í Vúlkanann Spock, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan.

Business Insider greinir nú frá því að Seðlabanka Kanada sé heldur illa við þetta uppátæki og hefur hann beðið fólk vinsamlegast um að láta af því. Segir bankinn að þótt ekki sé talið lögbrot að teikna á peningaseðla ætti fólk ekki að stunda slíkt.