Seðlabanki Kína hefur fellt gengi kínverska júansins annan daginn í röð. Bankinn lækkaði gengið um 1,9% í gær , en lækkunin í morgun nam 1,6%. Hefur gengið ekki lækkað jafnmikið gagnvart Bandaríkjadal á svo skömmum tíma í meira en tvo áratugi, samkvæmt frétt BBC News .

Af fréttum í gær mátti skilja sem svo að lækkunin þá hefði verið einskiptislækkun en aftur lækkaði Seðlabankinn þó gengið í morgun. Tilgangurinn er sagður vera að færa gengið nær væntingum markaðarins. Hins vegar hefur bankinn nú sagt að hann muni ekki halda uppteknum hætti á næstunni.

Viðskiptaráðuneyti Kína sagði eftir lækkunina nú í morgun að lægra gengi kæmi til með að hjálpa til við útflutning, en efnahagstölur sem birtust í Kína um helgina sýndu að útflutningur dróst saman um 8,3% í júlímánuði.