Seðlabanki Kína tilkynnti í dag að hann ætli að draga úr bindiskyldu viðskiptabanka um 0,5 prósentustig til að auka við fjármagn í umferð. Talið er að þetta muni losa um 108 milljarða Bandaríkjadala, eða um 14 þúsund milljarða króna.

Þetta er töluverð breyting frá fyrri stefnu bankans, en hann hefur streist mjög á móti því að grípa til þessa ráðs vegna hættu að það gæti veikt júanið, gjaldmiðil Kína. Bönkum í Kína er þó farið að skorta lausafé, sem varð til þess að seðlabankinn greip til þessa ráðs.

Samsetta vísitalan í Sjanghæ féll í viðskiptum dagsins sem nemur 2,86%. Vísitalan hefur ekki verið lægri í 14 mánuði og júanið hefur ekki verið veikara gagnvart Bandaríkjadal í þrjár vikur.