Seðlabanki Kína hefur lækkað meginvexti bankans um tíu punkta, úr 3,8% niður í 3,7%. Lánavextir til fimm ára voru einnig lækkaðir um 5 punkta úr 4,65% í 4,6%. Þetta kemur fram í frétt hjá Reuters .

Á sama tíma og Kína er að hefja vaxtalækkunarferli til að örva hagkerfið eru seðlabankar Bandaríkjanna og Bretlands að hefja vaxtahækkunarferli til að stemma stigu við hina ört vaxandi verðbólgu.

Sjá einnig: 8,1% hagvöxtur í Kína

Þrátt fyrir 8,1% hagvöxt í Kína í fyrra er kínverska hagkerfið að hægja á sér. Einkaneyslan hefur dregist ört saman vegna mjög harðra samkomutakmarkana og fasteignamarkaðurinn er brothættur, en Evergrande, stærsta fasteignafélag landsins, er í miklum fjárhagserfiðleikum og voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð um tíma.

Sheana Yue, hagfræðingur hjá Capital Economics áætlar að bankinn muni lækka meginvexti sína um tuttugu punkta til viðbótar á fyrri hluta þessa árs.