Seðlabanki Rússlands hefur ákveðið að framlengja neyðaraðgerðir sínar, sem ætlað er að styðja við þarlenda banka. Aðgerðirnar, sem áttu að renna út þann 1. júlí næstkomandi, munu að óbreyttu gilda til 1. október. Reuters segir frá.

Meðal aðgerðanna er að leyfa bönkum að nota eldra gengi rúblunnar við virðismat á ákveðnum eignum og að leyfa þeim að sleppa því að leggja til hliðar fé til að mæta hugsanlegu tapi á lánum til fyrirtækja sem standa nú illa vegna efnahagslegra refsiaðgerða gegn Rússlandi.