Seðlabanki Rússlands hefur lagt til að viðskipti með rafmyntir sem og rafmyntagröftur verði bannaður í landinu. Rússland er eitt stærsta rafmyntasvæði heims, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Tillagan felur í sér að Rússland myndi bann alla útgáfu rafmynta sem og rekstur þeirra. Þá yrði bönkum bannað að fjárfesta í rafmyntum og almennt yrði bannað að skipta á rafmyntum fyrir hefðbundinn gjaldeyri.

„Háskalegi vöxtur og markaðsvirði rafmynta má aðallega rekja til spákaupmennsku um framtíðarávöxtun,“ segir í 36 blaðsíðna skýrslu seðlabankans. „Rafmyntir hafa ákveðna þætti fjárhagslegra pýramída, þar sem verðhækkunin er aðallega studd af eftirspurn frá nýliðum á markaðnum.“

Haft er eftir Elizaveta Danilova, framkvæmdastjóra fjármálastöðuleikasviðs rússneska seðlabankans, að Rússar muni áfram fá að eiga rafmyntir erlendis en varaði þó við að eftirlitsaðilar myndu fylgjast með eignarhlut þeirra.

„Við teljum afar mikilvægt að banna notkun á rússneskum fjármálainnviðum til að eignast rafmyntir,“ sagði Danilova. Hún bætti við að með þessum aðgerðum væri verið að draga úr kerfisáhættu og á sama tíma tryggja að rafmyntir verði ekki jafnvinsælar og ella.

Þegar kínverski seðlabankinn tilkynnti í september að til stæði að banna öll viðskipti með rafmyntir þá tók gengið Bitcoin dýfu en náði sér aftur á strik einungis örfáum dögum síðar. Fréttirnar í gær virtust hreyfa lítið við gengi helstu rafmyntanna.