Mettap var hjá Svissneska seðlabankanum (SNB) á fyrsta ársfjórðungi upp á um 39 milljarða dollara. Tapið er sagt áhyggjuefni fyrir Svisslendinga og áminning um hvaða hættur of mikil eignasöfnunin erlendis getur haft í för með sér.

„Þú vilt ekki að SNB fari að minna á vogunarsjóð, sem vaxi Sviss yfir höfuð þannig að ef eitthvað fer úrskeiðis valdi það stórslysi fyrir svissneskt efnahagslíf,“ hefur FT eftir Stéphane Monier, fjárfestingastjóra svissneska bankans Lombard Odier.

Haldi taprekstur hans áfram getur það haft í för með sér að ekki verði hægt að útdeila arði til svissneskra kantóna, sem kann að hafa í för með sér pólitískar afleiðingar í Sviss.

Skráður í kauphöll

Svissneski seðlabankinn er um margt sérkennileg stofnun. Bankinn er að meirihluta í eigu opinbera aðila í Sviss en einkaaðilar eigi einnig nokkurn hlut í honum og hafa hlutabréf í seðlabankanum verið skráð í kauphöll þar í landi frá stofnun hans árið 1907.

Undanfarinn áratug hefur svissneski seðlabankinn hefur lagt áherslu á að halda niðri gengi svissneska frankans með því að kaupa erlenda gjaldmiðla og eignir utan landsins. Innan seðlabankans hafa verið áhyggjur af því að fjárfestar sem sækja í öryggi í Sviss valdi því að svissneski frankinn verði yfirverðlagður.

Átti meira í Facebook en Mark Zuckerberg

Stefna seðlabankans hefur haft í för með sér að það á nú um 800 milljarða dollara gjaldeyrisvaraforða. Það er meira fé en er í þjóðarsjóði olíuframleiðsluríkjanna Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Forðanum er fjárfest í ýmsum eignum erlendis, til að mynda hlutabréfum, sem er óvenjulegt fyrir seðlabanka. Félagið jók við hlutabréfaeign sína í Apple, GE og Walt Disney á fyrsta ársfjórðungi að því er Barrons greinir frá. Þá bendir miðilinn á að seðlabankinn eigi einnig nokkurn hlut í kannabisframleiðandanum Aurora sem á í talsverðum rekstrarerfiðleikum.

Árið 2018 átti SNB á tímabili fleiri hlutabréf í Facebook en Mark Zuckerberg, stofnandi fyrirtækisins, samkvæmt frétt FT.

Bandaríkin í hótunum við Svisslendinga

Seðlabankinn hefur lengi beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði auk lægstu stýrivaxta í heimi til að halda niðri gengi frankans en stýrivextir eru nú mínus 0,75%, Bandaríkjamenn hótuðu í janúar að setja Sviss á lista yfir ríki sem hefðu óeðlileg afskipti af gengi gjaldmiðils síns. Seðlabankinn hefur þó haldið áfram kaupum á gjaldeyri að undanförnu til að halda aftur af gengisstyrkingu.