*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Erlent 3. september 2018 19:04

Seðlabanki Tyrklands heitir aðgerðum

Seðlabanki Tyrklands hét því að grípa til aðgerða vegna mikillar verðbólgu. Greinendur efast hinsvegar um sjálfstæði hans.

Ritstjórn
Murat Çetinkaya hefur verið bankastjóri tyrkneska seðlabankans frá því í apríl 2016.
epa

Seðlabanki Tyrklands hefur heitið því að grípa til aðgerða eftir að nýjar tölur, sem birtar voru í dag, sýndu að verðbólga mælist nú 17,9%, og hefur ekki verið jafn há í 15 ár.

Þess er nú vænst að á stýrivaxtaákvörðunarfundi á fimmtudag í næstu viku verði stýrivextir hækkaðir, en greinendur spyrja sig þó hversu langt seðlabankinn geti gengið veg stýrivaxtahækkana í óþökk forseta landsins, Recep Tayyip Erdogan.

Erdogan hefur lýst yfir andstöðu sinni við háa stýrivexti opinberlega, en hann fékk í júlí vald til að skipa seðlabankastjóra og peningastefnunefnd.

Þeir liðir sem hækkuðu mest voru orku- og flutningskostnaður, vegna mikils gengisfalls tyrknesku lírunnar.

Piotr Matys, hagfræðingur hjá hollenska bankanum Rabobank, sagði í samtali við Wall Street Journal að að þeirra mati ætti seðlabankinn að koma markaðnum á óvart með að minnsta kosti 10% vaxtahækkun. „Hinsvegar er, eins og alltaf, reginmunur á því sem seðlabankinn ætti að gera, og hvers hann er megnugur gagnvart andúð háttsettra tyrkneskra embættismanna á vaxtahækkunum.“

Stikkorð: Tyrkland Erdogan