Fátækleg gögn eru til í Seðlabankanum um 500 milljón evra neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008 eru fátækleg. Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um lánveitinguna. Til að mynda eru ekki eru til gögn um formlega beiðni Kaupþings um lánveitinguna og ekki var gerð skrifleg bankastjórnarsamþykkt um lánveitinguna.

Lánið var veitt til fjögurra daga en ákvörðun um lánveitinguna var tekin af bankastjórn Seðlabankans í samráði við Geir H. Haarde forsætisráðherra. Davíð Oddsson og Geir H. Haarde ræddu lánveitinguna í frægu símtali 6. október 2008. Skýrslan hefur verið í vinnslu í Seðlabankanum frá árinu 2015 en útgáfu skýrslunnar hefur verið frestað nokkrum sinnum.

Helmingur lánsins tapaðist

Seðlabankinn fékk veð í FIH bankanum við lánveitinguna sem Seðlabankinn seldi í september 2010. Tap Seðlabankans af lánveitingunni er áætlað 240 milljónir evra, um 33 milljarðar króna á núvirði.

Í skýrslunni segir að Seðlabankinn hafi verið undir miklum þrýstingi frá dönskum stjórnvöldum að selja bankann. „Þau höfðu veitt bankanum verulegar ríkisábyrgðir á fjármögnun sinni sem áttu að renna út í lok september. Það var mjög líklegt að FIH kæmist í þrot ef ríkisábyrgðar nyti ekki við enda var lánshæfismat bankans á niðurleið. Hefði það gerst þá hefðu endurheimtur Seðlabankans mjög líklega orðið mun minni en nú liggur fyrir og mögulega hefði hann tapað öllu láninu. Lítill vafi er á að sama hefði gerst ef dönsk stjórnvöld hefðu tekið yfir bankann. Samningsstaða Seðlabankans var af þessum sökum veikari en ella. Eigi að síður lagði bankinn ofuráherslu á að sölusamningur gæfi færi á að endurheimta allt lánið og var tekist á um það atriði fram á síðustu stundu," segir í skýrslunni.

Rástöfun neyðarlánsins


Þá er greint frá því hvað varð um andvirði lánsins. Seðlabankinn fékk þau gögn frá Kaupþingi um áramótin eftir að Katrín Jakobsdóttir spurði Seðlabankann  um hvernig láninu var ráðstafað. Samantekt Kaupþings er frá árinu 2010. Í skýrslunni er greint frá inn- og útgreiðslum af evrureikningi Kaupþings hjá Deutsche Bank í Frankfurt frá morgni mánudagsins 6. október og þar til bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu aðfaranótt 9. október 2018. Hafa verður í huga að einstakar inngreiðslur á reikninga Kaupþings banka voru ekki eyrnamerktar ákveðnum útgreiðslum.

  • Útgreiðslur til innstæðueigenda í Kaupþing EDGE að fjárhæð 225 milljónir evra.
  • Greiðsla til norræns seðlabanka að fjárhæð 170 milljónir evra.
  • Greiðsla til tveggja erlendra félaga að fjárhæð 50 milljónir evra vegna útgáfu CLN (e. credit linked note) skuldabréfa.
  • Greiðsla vegna veðkalls í tengslum við endurkaupasamning (REPO) til tveggja evrópskra banka að fjárhæð 47 milljónir evra.
  • Greiðslur vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð 203 milljónir evra.
  • Smágreiðslur (lægri en 10 milljónir evra), 4 – 500 talsins, í heild að fjárhæð 114,5 milljónir evra.

Samtals námu útgreiðslur 810 milljónum evra og staðan á reikningi félagsins í dagslok 8. október 2008 nam 0,6 milljónum evra.

„Ekki er mögulegt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun þrautarvaraláns Seðlabankans á grundvelli ofangreindra upplýsinga. Þær sýna þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu líklega leitt til falls bankans. Færslurnar bera með sér að áhlaup er í gangi á innstæður og önnur fjármögnun er að verða erfiðari sem lýsir sér í veðköllum sem væntanlega tengjast veð- og endurkaupasamningum. Samtals nema greiðslur til norræns seðlabanka, útstreymi á innstæðum og greiðslur vegna veðkalla 442 milljónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skuldabréfið má nefna að málið er ennþá til meðferðar hjá dómstólum. Ekki er heldur hægt að draga miklar ályktanir af upplýsingum um fjárhæð gjaldeyrisviðskipta og mótaðila í þeim viðskiptum. Gera má ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoðaðar af þar til bærum aðilum," segir í skýrslunni.

Tvennskonar lærdómur

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í formála skýrslunnar að tvennskonar lærdóm þurfi að draga af málinu. „Í fyrsta lagi þarf að skýra betur stjórnsýsluna í kringum veitingu lána til þrautavara. Í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi að nýjum lögum um Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að ákvarðanir um veitingu þrautavaralána séu teknar á fundi seðlabankastjóra og þriggja varaseðlabankastjóra og skuli skráðar í fundargerð. Þá er ákvæði um að ráðherra sem fer með efnahagsmál og fjármál skuli upplýstur um slíkar ákvarðanir. Í öðru lagi þarf að draga þann lærdóm að veð í hlutafé erlends banka er ekki heppilegt þegar Seðlabankinn veitir lán til innlendra banka. Almennt þarf að draga þann lærdóm að seðlabankar þurfi á hverjum tíma að hafa gott yfirlit um tiltæk veð þeirra banka sem eru í viðskiptum við þá," segir Már.