Már Guðmundsson á fundi AGS í Hörpunni
Már Guðmundsson á fundi AGS í Hörpunni
© vb.is (vb.is)

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, vill ekki upplýsa um einstök viðskipti bankans.

„Við upplýsum ekki um einstök viðskipti,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri er hann var spurður um það hvort bankinn ætli að greina frá því hver huldumaðurinn sé sem seldi bankanum ríkisbréf fyrir 18 milljarða króna gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri í tengslum við gjaldeyrisútboð bankans í fyrrasumar.

Már neitaði enn að upplýsa um seljandann á fundi í bankanum í morgun þar sem gerð var grein fyrir vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar.

Greining Íslandsbanka sagði frá því í Morgunkorni sínu um mánaðamótin að Seðlabankinn eigi enn eftir að sækja til baka í forða sinn um 130 milljónir evra, jafnvirði 21 milljarðs króna, eftir útboðið sem þótti misheppnað.

Bæði deildin og Viðskiptablaðið hafa sagt viðskiptin við huldumanninn svokallaða sérkennileg en ógjörningur hefur reynst að fá upplýsingar um viðskiptin.