Seðlabankinn hefur fallið frá undanþágum sem bankinn veitti vegna viðskipta fjárfesta með hlutabréf færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum. Undanþágan fellur undir þau hlutabréf erlendra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Seðlabankinn sendi Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallarinnar, bréf þessa efnis í gær. Í bréfinu er reifað að innlendum aðilum hafi með ákvörðunum Seðlabankans frá 9. desember 2008 og 12. desember sama ár um undanþágur frá gjaldeyrishöftum verið heimilt að eiga viðskipti með erlend verðbréf sem skráðu eru í Kauphöllina, þ.e. verðbréf sem gefin eru út í erlendum gjaldmeyri af erlendum félögum.

Mega kaupa fyrir erlendan gjaldeyri

Á miðvikudag var frá því greint að stjórn Atlantic Petroleum hafi óskað eftir afskráningu hlutabréfa félagsins úr Kauphöllinni. Hlutabréf olíuleitarfélagsins voru skráð á markað hér um mitt ár 2005 og var þetta fyrsta erlenda félagið til að verða skráð á markað hér á landi. Hlutabréfin munu eftirleiðis verða skráð í Kaupmannahöfn auk þess sem stefnt er að skráningu í norsku kauphöllina í Osló.

Í bréfi Seðlabankans til Páls Harðarsonar segir að þrátt fyrir að undanþágan hafi verið afturkölluð að hluta hvað snerti gjaldeyriskaup vegna viðskipta með hlutabréf Atlantic Petroleum þá verði innlendum aðilum sem eiga endurfjárfestanlegan gjaldeyri áfram heimilt að fjárfesta í hlutabréfum Atlantic Petroleum. Með endurfjárfestanlegum erlendum gjaldeyri er átt við erlendan gjaldeyri sem er tilkominn af erlendum fjárfestingum sem fjárfest var í fyrir 29. nóvember árið 2008 þegar gjaldeyrishöft voru sett á. Innlendum fjármálafyrirtækjum er þessu samkvæmt óheimilt að selja innlendum aðilum erlendan gjaldeyri fyrir krónur vegna fjárfestinga þeirra í Atlantic Petroleum.

Páll Harðarson
Páll Harðarson
© BIG (VB MYND/BIG)
Páll Harðarson,forstjóri Kauphallarinnar.