Seðlabankinn á enn eftir að sækja til baka í forða sinn um 130 milljónir evra, jafnvirði 21 milljarð króna, sem vantar upp á eftir misheppnað útboð í fyrrasumar og sérkennileg viðskipti við óþekktan erlendan aðila.

Þetta skrifar Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu í dag í umfjöllun sinni um gjaldeyrisútboð Seðlabankans.

Greiningardeildin segir að í þessum sérkennilegu viðskiptum hafi bankinn keypt ríkisbréf fyrir um 18 milljarða króna gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri. Ógjörningur hafi hins vegar reynst að ná nánari upplýsingar um viðskiptin að öðru leyti.

Gjaldeyrisútboð Seðlabankans eru liður í afnámi gjaldeyrishaftanna. Í þeim felst að bankinn býðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur. Annars vegar er það til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisbréfum til fimm ára.

Næsta útboði lýkur 15. febrúar næstkomandi.