Seðlabankinn þarf á gjaldeyri að halda og þarf því að vera stórtækur á gjaldeyrismarkaði. Þetta kemur fram í fréttabréfi Júpíters rekstrarfélags.

Í fréttabréfinu er bent á að árið 2009 hafi Seðlabankinn hafi í fyrra átt 52 prósent af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði. Nú sé hlutfallið hins vegar komið niður í tíu prósent. Þá hafi Seðlabankinn selt talsvert af gjaldeyri í þeim tilgangi að styðja við gengi krónunnar.

Rekstrarfélagið bendir á að Í ljósi þess að viðskiptajöfnuður íslenska hagkerfisins er ekki með fegursta móti nú um stundir, gjaldeyrisvaraforðinn skuldsettur upp í rjáfur og hrein gjaldeyriseign með minnsta móti þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða þá verði hann að láta til sín taka á gjaldeyrismarkaði á nýjan leik.

Í fréttabréfinu er vitnað til orða Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í nóvember 2009. Þar sagði hann ekki fást staðist að verja gengið í gegnum þykkt og þunnt. Ekki borgi sig heldur að grafa línu í sandinn gagnvart markaðnum. Betra sé að beita herkænsku Genghis Khan sem byrjaði á því að hörfa og lokkaði með því andstæðinga úr vígjum sínum áður en hann gjöreyddi þeim.