Starfsmaður Fjármálaeftirlitsins (FME) veitti Seðlabankanum fyrir mistök heimild til að birta opinberlega upplýsingar úr óbirtum ársreikningi Sparisjóðs Norðurlands. Greint er frá þessu í Viðskiptamogganum .

Þar kemur fram að Sparisjóðurinn hafi veitt FME ársreikninginn í því trausti að trúnaður myndi ríkja um efni hans þar til eigendum sjóðsins hefði verið kynnt efni hans á aðalfundi sem á að fara fram í lok maí. Birti Seðlabankinn upplýsingar úr reikningnum í riti sínu „Fjármálastöðugleiki“ í síðustu viku.

„Það er afar óheppilegt að þessi gögn hafi verið birt með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess hver staða sjóðsins er,“ segir Jónas M. Pétursson sparisjóðsstjóri í samtali við Viðskiptamoggann, en tap af rekstri sjóðsins nam rúmum 672 milljónum króna á síðasta ári og var eiginfjárhlutfallið 0,2% yfir lögbundnu lágmarki um áramótin.