Seðlabankinn er töluvert bjartsýnni á hagvaxtarhorfur en Greining Íslandsbanka miðað við það sem fram kom í Morgunkorni þeirra í lok síðustu viku. Þar kom fram að Greining Íslandsbanka býst við 1,2% hagvexti í ár.

Í nýjustu útgáfu Peningamála, sem kom út í morgun, kemur aftur á móti fram að horfur séu á tæplega 2% hagvexti í ár, svipað og í spá bankans frá í maí. Seðlabankinn segir að hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar versnað og er nú spáð tæplega 3% hagvexti á ári í stað ríflega 3%.

Seðlabankinn segir að mikilvæg skýring lakari hagvaxtarhorfa sé að ekki verði af fjárfestingu tengdri stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík sem geri það að verkum að miðað við maíspána verði fjárfesting hægari á næsta ári og útflutningsvöxtur minni árið 2015.

Seðlabankinn segir að batinn á innlendum vinnumarkaði hafi hins vegar reynst töluvert kröftugri en spáð hafi verið í maí. Starfandi fólki haldi áfram að fjölga, meðalvinnutími sé tekinn að lengjast á ný og heildarvinnustundum fjölgað nokkru meira en spáð hafi verið í maí.