Seðlabankinn býst við að verðbólga fari lækkandi á næstunni og fari senn undir 4% á ný. Þetta kemur fram í g reinargerð Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar sem skrifuð er vegna þess að verðbólga mældist 4,3% í janúar og fór yfir 4% vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Lögum samkvæmt ber Seðlabankanum að skila greinargerð til ríkisstjórnarinnar fari verðbólga út fyrir vikmörkin sem miðast við 1% til 4% verðbólgu en verðbólgumarkmiðið er 2,5% verðbólga.

Seðlabankinn spáir því að verðbólga ná hámarki á fyrsta fjórðungi þessa árs en hjaðna nokkuð ört þegar líður á árið og verða nálægt 2,5% verðbólgumarkmiðinu undir lok ársins. Því verði verðbólgan einungis um skamman tíma yfir 4%. „Horfur eru á að verðbólga hjaðni ört á næstu mánuðum eftir því sem áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra fjara út, einkum ef stöðugleiki helst á gjaldeyrismarkaði eða gengið hækkar. Umtalsvert atvinnuleysi og framleiðsluslaki ættu einnig að draga úr verðbólgu,“ segir í greinargerðinni.

Í greinargerðinni kemur fram að umfangsminni janúarútsölur en á síðasta ári eigi þátt í að skýra hvers vegna verðbólgan fór yfir vikmörkin. Það megi að einhverju leyti rekja til þróttmeiri innlendrar eftirspurnar í aðdraganda jóla en búist var við.

Verðbólga síðustu 12 mánaða skýrist að talsverðu leyti af gengislækkun krónunnar. Þeir liðir sem sem næmastir eru fyrir gengisbreytingum hafi hækkað mest í verði. Verðlag innfluttrar vöru án áfengis og tóbaks hefur til að mynda hækkað um 7,1% í janúar frá því á sama tíma fyrir ári. „Á síðasta fjórðungi 2020 hafði meðalgengi krónunnar gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu lækkað um 12,5% frá sama tíma fyrir ári en mest var lækkunin á fyrsta fjórðungi ársins. Undanfarna mánuði hefur krónan hækkað nokkuð á ný og eru vísbendingar um að dregið hafi úr áhrifum gengislækkunarinnar á verð innfluttrar vöru. Verðlagsáhrif lægra gengis ættu því að halda áfram að minnka,“ segir í greinargerðinni.

Þá hefur íbúðaverð hækkað um 8,9% undanfarið ár. Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs hefur þó aðeins hækkað um 3,6% þar sem húsaleiga hefur hækkað mun minna en íbúðaverð, auk þess sem lægri raunvaxtakostnaður hefur vegið á móti. Engu síður sé ljóst að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ýtt undir eftirspurn á fasteignamarkaði.

Verðhækkun innlendrar vöru endurspegli að einhverju leyti ágætan þrótt innlendrar eftirspurnar sem er sögð m.a. studd af ríflegum hækkunum launa, en einnig verðhækkun innfluttra aðfanga. Verðlag almennrar þjónustu hafi hins vegar ekki hækkað mikið undanfarið ár sem endurspegli að ýmis þjónustustarfsemi, t.d. í ferðaþjónustu, hefi átt undir högg að sækja vegna farsóttarinnar og sóttvarnaraðgerða.