Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa 72 milljónir evra gegn greiðslu í ríkisverðbréfi í krónum. Umræddur skuldabréfaflokkur er á gjalddaga 2030. Útboðið er liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, en þetta er í annað sinn sem bankinn býðst til að kaupa evrur. Áður hefur bankinn keypt aflandskrónur fyrir evrur, sem hann hyggst nú endurheimta með evrukaupunum. Frestur til að skila tilboðum rennur út þriðjudaginn 16. ágúst.

„Markmið þessara aðgerða er að endurheimta þann gjaldeyri sem Seðlabanki Íslands nýtti til kaupa á krónum í fyrra útboði og selja krónur til aðila sem tilbúnir eru til að eiga þær í a.m.k. 5 ár. Þetta er gert með því að bjóða aðilum sem eiga gjaldeyri sem ekki er skilaskyldur að kaupa löng skuldabréf ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig jafnframt að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga þannig úr endurfjármögnunarþörf á meðan losað er um gjaldeyrishöft,“ segir í tilkynningu á vefsíðu Seðlabankans.

Í útboðsskilmálum kemur fram að hámarksverð í útboðinu er 210 krónur fyrir evru. Það er sama hámarksverð og í síðasta útboði þar sem bankinn keypti evrur. Stórir þátttakendur þá voru lífeyrissjóðir og buðu þeir allir 210 krónur fyrir sína evru.