*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 2. júlí 2017 11:17

Seðlabankinn ekki keypt meira síðan 2008

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir Seðlabankann ekki vilja of stórar og skyndilegar fjármagnshreyfingar úr landi.

Höskuldur Marselíusarson
Aðsend mynd

Seðlabanki Íslands greip nýlega til aðgerða á gjaldeyrismarkaði og vann gegn veikingu krónunnar. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um furða þeir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sig á að styrking krónunnar fái ekki að ganga til baka án afskipta.

Seðlabanki Íslands keypti 2.462 milljónir króna á gjaldeyrismarkaði nýlega, en bankinn hefur ekki keypt jafnmikið af krónum síðan árið 2008. Þrátt fyrir kaupin nam veiking krónunnar þann 21. júní síðastliðinn tæplega 1,83% þegar kaupin áttu sér stað.

Eru þetta einungis þriðju kaup bankans á krónum á heilu ári, en hin kaupin voru í kringum afnám gjaldeyrishaftanna. Annars vegar keypti bankinn þá fyrir 348 milljónir króna þann 7. mars síðastliðinn, og hins vegar fyrir 1.427 milljónir mánudaginn 13. mars, degi eftir að tilkynnt var um afnám haftanna á þriðjudeginum komandi.

Gengi krónunnar hefur sveiflast nokkuð frá áramótum og veiktist krónan nokkuð gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum á markaði í gær. Heildarstyrkingin frá áramótum nemur þó 3,53% miðað við gengisvísitölu. Hins vegar hefur krónan veikst talsvert í mánuðinum, eða um 6,3% gagnvart evru, sem er í samræmi við vonir hvort tveggja stjórnvalda og útflutningsaðila.

Fyrsti mánuðurinn síðan 2013 sem kaupa meira en selja

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur að inngrip Seðlabankans í síðustu viku sé í samræmi við þá yfirlýstu stefnu bankans að bregðast við skammtímasveiflum.

„Bankinn er hættur að kaupa gjaldeyri reglulega á markaði, og ef það heldur áfram sem horfir, þá verður júní fyrsti mánuðurinn síðan í september árið 2013 þar sem þeir selja meiri gjaldeyri en kaupa,“ segir Jón Bjarki. „Í byrjun mánaðarins keyptu þeir aðeins af gjaldeyri, en ef þeir verða ekki stórtækir í kaupum þessa fáu daga sem eftir er af mánuðinum gæti þetta orðið niðurstaðan. Það er svolítið merkilegt.“

Jón Bjarki telur að Seðlabankinn vilji ekki vera fyrirsjáanlegur í inngripum sínum, en það virðist sem hreyfing í hvora átt sem nemi um 2% á einum degi ýti við þeim.

„Það er erfitt að setja fingurinn á hvað er að gerast, því þó það sé vöruskiptahalli, vega miklar tekjur af ferðaþjónustunni hann upp, þannig að þetta hlýtur að tengjast fjármagnshreyfingum,“ segir Jón Bjarki. „Það er þá annaðhvort kaupum erlendra aðila á eignum hérlendis, eða kaupum Íslendinga á eignum erlendis, eða afborganir af lánum.“

Jón Bjarki segir líklegt að Seðlabankinn vilji hafa vakandi auga með því að ekki verði of stórar og skyndilegar fjármagnshreyfingar úr landi, þó að flestir telji æskilegt að stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðirnir auki erlendar fjárfestingar.

„Þeir horfa líklega til þess að það verði með samfelldum og jöfnum hætti, og er þá hægt að horfa á aðgerðir síðustu viku sem leið til að standa gegn stuttum og snörpum hreyfingum í þessa átt,“ segir Jón Bjarki sem segir aukna hreyfingu fjármagns út fyrir landsteinana þó frekar vera fagnaðarefni heldur en hitt.

„Það þjónar bæði þeim tilgangi að áhættudreifa innlendum sparnaði og færa gengið til baka, nær því sem kallað hefur verið eftir, sem hentar útflutningsatvinnuvegunum. Í raun hentar það einnig Seðlabankanum að geta létt á hreina gjaldeyrisforðanum því hann er dýr.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.