*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 15. október 2019 08:28

Seðlabankinn fækkar viðskiptareikningum

Bankinn hefur ákveðið að frá og með 1. apríl 2020 mun bankinn fækka þeim aðilum sem átt geta viðskiptareikning í Seðlabankanum.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Seðlabankinn hefur ákveðið að frá og með 1. apríl 2020 mun bankinn fækka þeim aðilum sem átt geta viðskiptareikning í Seðlabankanum. Í þeim hópi eru nú bankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, ríkisstofnanir og ýmsir sjóðir í eigu ríkisins. Frá og með 1. apríl nk. munu eingöngu innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabankar, og sparisjóðir og A-hluta stofnanir í eigu ríkisins eiga þess kost. Greinir Seðlabankinn frá þessu í fréttatilkynningu.

Þar segir einnig að viðskiptareikningum lánafyrirtækja auk sjóða sem ekki teljast til A-hluta stofnana verði lokað 31. mars 2020. Lokunin taki ekki til uppgjörsreikninga. Þá muni sömu aðilar ekki eiga kost á viðskiptum við Seðlabankann frá og með 28. febrúar 2020.

Til samræmis við ofangreint mun Seðlabanki Íslands breyta reglum nr. 585/2018 um bindiskyldu og reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands á þann hátt að lánafyrirtæki sem hafa starfsleyfi skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki verði ekki bindiskyld frá og með 21. mars 2020 og hafi ekki aðgang að viðskiptum við Seðlabankann frá og með 28. febrúar 2020," segir í tilkynningunni.

„Markmið Seðlabankans með viðskiptum og lausafjárstýringu er að styðja við miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið. Í ljósi þess telur Seðlabankinn betur samræmast hlutverki bankans að haga vaxtamiðlun í gegnum þau fjármálafyrirtæki sem geta með skilvirkum og gagnsæjum hætti miðlað henni áfram til einstaklinga og fyrirtækja í formi innlána eða útlána,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir enn fremur að bankinn telji það ekki hlutverk sitt að vera í samkeppni við fjármálafyrirtæki um innistæður og innlánsreikningar bankans eigi ekki að vera kostur í fjárfestingum og áhættudreifingu umfram það sem nauðsynlegt er.

„Þeir peningar sem eru lagðir inn í Seðlabankann fara úr umferð. Þannig að ef við fækkum þeim sem geta verið með innlán í Seðlabankanum þá erum við að auka lausafé í umferð,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri við Fréttablaðið.