Skerpt verður á heimildum Seðlabanka Íslands til að setja lánastofnunum reglur um laust fé og lágmark stöðugrar fjármögnunar hvort sem er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum samkvæmt frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi.

Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um Seðlabankann og færir bankanum aukin völd. Með framangreindum heimildum er Seðlabankanum ætlað að skilgreina betur hvaða eignir og skuldir falli undir gjaldeyrisjöfnuð, sundurliðun þeirra og vægi eins og það er orðað í skýringu með frumvarpinu.

„Til að reglur Seðlabankans nái markmiði sínu og bankinn geti rækt það hlutverk sitt að stuðla að fjármálastöðugleika og þar með virku og öruggu fjármálakerfi er jafnframt lagt til að skerpt verði á heimildum Seðlabankans til þess að afla upplýsinga og að tilgreint ákvæði laganna um beitingu dagsekta verði sett fram með skýrari hætti,“ segir jafnframt í skýringunum. Þá er lagt til að skýrt verði tekið fram í lögum um Seðlabanka Íslands að bankinn skuli stuðla að fjármálastöðugleika.

Í skýringum er vísað til þess að í sérriti Seðlabankans nr. 6, Varúðarreglur eftir fjármagnshöft, sé sérstaklega farið yfir nauðsyn þess að innleiða reglur af þessu tagi áður en fjármagnshöft verða losuð og mikilvægi þess að Seðlabankinn geti greint á milli íslenskra króna og erlends gjaldmiðils og hvers vegna reglur um laust fé og fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum þurfa að vera stífari.

Sjá frumvarpið í heild sinni.