„Tískan í dag er sú að fela seðlabönkum enn meiri völd, til að mynda á sviði þjóðhagsvarúðar, sem er svar stjórnmálamanna við þeirri kröfu almennings að „það þurfi eitthvað“ til að koma í veg fyrir næstu fjármálakreppu,“ segir Jón Daníelsson, hagfræðingur, í samtali við Morgunblaðið.

Jón flutti erindi um fjármálamarkaði og þjóðhagsvarúð á vegum Hagfræðideildar Háskóla Íslands síðasta föstudag. Segir hann að þrátt fyrir háleit markmið um að fyrirbyggja kerfisáhættu í fjármálakerfinu með því að fela seðlabönkum aukin völd við að framfylgja þjóðhagsvarúðarstefnu þá sé fátt sem bendi til að árangurinn verði sá sem vonast sé eftir. Áhættutaka á fjármálamarkaði muni frekar verða í auknum mæli utan hins hefðbundna eftirlitsskylda bankakerfis.

Með þjóðhagsvarúðartækjum er átt við þak á veðsetningarhlutföll, takmörk á útlán í erlendri mynt, gjaldeyrismisræmi fjármálastofnana og kröfur um gjaldeyrissjóð. Hefur Jón efasemdir um að hægt sé að stemma stigu við kerfisáhættu í fjármálakerfinu með innleiðingu slíkra tækja.