Slitabú Kaupþings er tilbúið að afhenda Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) 87% eignarhlut sinn í Arion banka í skiptum fyrir samþykktar kröfur ESÍ á hendur Kaupþingi. Þetta kemur fram í DV .

Þar kemur fram að eignarhlutur slitabúsins sé metinn á um 140 milljarða króna miðað við bókfært eigið fé. Markaðsvirði samþykktra krafna ESÍ, sem er meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings, sé hins vegar um 35 milljarðar króna.

DV kveðst hafa heimildir fyrir því að hugmyndirnar hafi verið kynntar ráðgjöfum stjórnvalda um afnám fjármagnshafta í byrjun desember, en stjórnvöld hafi ekki tekið afstöðu til málsins. Það sé mat slitastjórnar Kaupþings og fulltrúa erlendra kröfuhafa að ef stjórnvöld myndu fallast á eignaskiptin væri búið að leysa þann vanda sem snýr að útgreiðslu krónueigna til erlendra kröfuhafa.