Greiningardeildir bankanna merkja breytingu á stefnu Seðlabankans í gjaldeyrisinngripum, en peningastefnunefnd metur sem svo að ekki sé þörf á stærri gjaldeyrisforða og að ekki sé lengur þörf á gjaldeyrisinngripum í samhengi við losun fjármagnshafta.

Fram kom á kynningarfundi Seðlabankans í morgun að bankinn telji sig nú allt eins geta selt og keypt gjaldeyri á markaði en síðustu ár hefur hann eingöngu verið að kaupa gjaldeyri.

Kemur Arion banka á óvart

Greiningardeild Arion banka segir það koma sér örlítið á óvart að Seðlabankinn vilji ekki leggjast á móti frekari gengisstyrkingu og segja þeir að kannski líti bankinn ekki á það sem sitt hlutverk að berjast gegn hættu á ofrisi.

Greining Íslandsbanka segir að skammtímasveiflur í gengi krónunnar hafi það sem af er ári verið meiri en síðustu tvö ár.

Í yfirlýsingu nefndarinnar sé stefnt að því að þær verði minni á næstunni og segir Íslandsbanki að þar sé tekið fram að viðskipti á gjaldeyrismarkaði muni markast af því markmiði en ekki til að stækka gjaldeyrisforðann eða nauðsyn þess að takmarka ofris krónunnar.

Gjaldeyrisforðinn gæti þó stækkað áfram

Íslandsbanki telur þetta benda til þess að bankinn gæti orðið virkari á söluhlið gjaldeyrisviðskipta ef frekari veikingarþrýstingur verði á gjaldeyrismarkaði.

Sagði Seðlabankastjóri á fundinum í morgun að líkurnar hefðu aukist á því að bankinn færi að koma báðum megin inn á gjaldeyrismarkaðinn til að bregðast við skammtímasveiflum í genginu.

Þó gæti gjaldeyrisforðinn stækkað þó ekki sé þörf á frekari stækkun. Bætti Seðlabankastjóri að bankinn væri með innri reglu um inngripin sem þó væri ekki birt þar sem það væri bankanum í hag að vera ófyrirsjáanlegur á gjaldeyrismarkaði.