Sérstakur saksóknari hefur nú til skoðunar að fella niður tíu mál þar sem grunur er um brot á reglum um gjaldeyrismál þar sem reglurnar teljast ekki tæk refsiheimild. Seðlabanki Íslands lét fyrir farast að leita staðfestingar ráðherra á reglunum í lok árs 2008 eins og áskilið var í lögum. Sérstakur saksóknari hefur þegar fellt niður sjö slík mál hjá embættinu. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag.

Í Aserta-málinu svokallaða er fjórum mönnum gefið að sök að hafa brotið gjaldeyrislög en því máli var vísað frá af héraðsdómi þar sem ákæran uppfyllti ekki kröfur sakamálalaga um skýrleika ákæru. Hæstiréttur hefur sent málið aftur til héraðsdóms.

Reglur um gjaldeyrismál sem mennirnir eru grunaðir um að hafa brotið voru hins vegar ekki réttilega settar því það vantaði staðfestingu viðskiptaráðherra á reglunum eins og lög um gjaldeyrismál gerðu áskilnað um.