Innflutningur er meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í spám sínum á fjórða ársfjórðungi. „Það getur verið vísbending um að við eigum eftir að sjá endurskoðun á fjárfestingum upp á við. Mat okkar er að fjárfesting sé vanmetin," sagði Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans á kynningarfundi vegna stýrivaxtaákvörðunar í morgun.

Þórarinn benti á að Seðlabankinn taldi í sínum spám að landsframleiðslan myndi aukast á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en í tölum Hagstofunnar dróst landsframleiðslan saman. Aðalhagfræðingurinn minnti á að Seðlabankinn gerði ráð fyrir samdrátti á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Því geti þessi samdráttur á síðasta ársfjórðungi hafa komið fyrr en Seðlabankinn gerði ráð fyrir. „Við teljum ekki ástæðu enn sem komið er að breyta mati okkar á tímasetningu efnahagsbatans," sagði Þórarinn.

Innlend eftirspurn er í takt við spá Seðlabankans en vöxtur innflutnings er kröftugri. Þórarinn benti á að líklegt sé að samdráttur í landsframleiðslu í fyrra eigi eftir að enda minni en bráðabirgðatölur Hagstofunnar gefi til kynna. Fyrstu tölur um utanríkisviðskipti séu að jafnaði áreiðanlegri enf yrstu tölur um þjóðarútgjöld. Það eigi sérstaklega við um fjárfestingu.