Seðlabanki Íslands tilkynnti 12. mars síðastliðinn um kaup á aflandskrónueignum að fjárhæð um 90 milljarðar króna á genginu 137,5 krónur á evru. Jafnframt var tilkynnt að bankinn hygðist bjóða þeim eigendum aflandskróna sem ekki áttu aðild að samningunum 12. mars sömu kjör. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum.

Það boð var ítrekað 4. apríl síðastliðinn með frétt bankans. Frestur til þátttöku rann út föstudaginn 28. apríl síðastliðinn og er nú verið að fara yfir viðbrögðin að sögn Seðlabankans. Fjöldi áhugasamra náði ekki að ganga frá viðskiptum innan þess tímaramma sem bankinn setti. Því hefur bankinn ákveðið að framlengja tímabilið sem milligönguaðilar Seðlabankans hafa til að skila inn boðum til 15. júní 2017.

„Tilboðið nær til erlendra fjármálafyrirtækja, sjóða og viðurkenndra mótaðila sem uppfylla skilyrði um varnir gegn peningaþvætti og aðrar kannanir á áreiðanleika viðskiptamanna gagnvart Clearstream Banking S.A og Euroclear Bank S.A./N.V., sem verða milligönguaðilar Seðlabankans í tilboðinu. Slíkir aðilar geta átt viðskipti hvort sem er fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina sinna. Eigendur aflandskróna skulu hafa samband við vörsluaðila viðkomandi eigna vegna viðskipta og uppgjörs en frestur til viðskipta og uppgjör viðskipta getur verið mismunandi eftir vörsluaðilum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skilmála tilboðsins verða birtar á næstu dögum,“ segir að lokum í tilkynningu frá Seðlabankanum.