Seðlabanki Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna greinar Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, í Fréttablaðinu í morgun. Þar sagði Hreiðar Már að ekki hefði verið gengið frá veði fyrir lánveitingu Seðlabankans til Kaupþings þann 6. október 2008, heldur hafi það verið gert eftir lánveitinguna.

Seðlabankinn segir að þessar fullyrðingar Hreiðars Más séu rangar. Í framhaldi þess að ákvörðun var tekin um veitingu þrautavaraláns til Kaupþings 6. október 2008 hafi starfsmenn Seðlabanka Íslands gengið strax í að fullvissa sig um að veðið fyrir láninu til Kaupþings stæði til reiðu.

Lögmaður Kaupþings hafi gert hluthafaskrá í Danmörku jafnframt strax viðvart um að Seðlabankinn væri að taka veð í öllum hlutum FIH-bankans. Veðgerningurinn hafi verið fullkláraður fyrir lok viðskiptadags og réttarvernd veðsins hefði þá verið að fullu tryggð.

Segir Seðlabankinn að stjórnendur Kaupþings hefðu undirritað gerninginn fyrir lok viðskiptadags 6. október. Fullyrðingar um að ekki hafi verið gengið frá veðsetningu fyrr en mörgum dögum seinna séu því rangar.