Hækki laun meira í næstu kjarasamningum í haust en Seðlabankinn gerir ráð fyrir með þeim afleiðingum að verðbólga aukist umfram spár þá er ekki útilokað að stýrivextir verði hækkaðir. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir það koma í ljós í október hver þróunin verður. Eins bætti hann því við að þróun í ríkisfjármálum muni hafa áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans.

Það var Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, sem vakti máls á því á fundinum að tóninn í Peningamálum Seðlabankans um horfurnar séu óbreyttar þrátt fyrir að verðbólguhorfur hafi versnað ásamt annarri óvissu.

„Hefði ekki verið ástæða til að opna fyrir vaxtahækkun á næstunni?“ spurðir hann.

Ekki brugðist við launaþróun fyrirfram

„Við erum ekki að horfa á skammtímaflökt heldur verðbólguþróun yfir lengri tíma. Það eru ýmsir verulegir óvissuþættir framundan. Við getum ekki brugðist við þeim fyrirfram. Þunginn í spánni er tiltöluleg aóhagstæð launaþróun. Við getum leyft okkur að gera ráð fyrir þeim möguleika að launaþróun verði hagstæðiari. Þetta er eitthvað sem mun liggja fyrir í október hvernig þessi þróun verður. Við munum bregðast við því í framhaldinu. Ef þetta verður á verri veg þá er vaxtahækkun möguleg,“ svaraði Arnór og áréttaði að Seðlabankinn geti ekki brugðist við hugsanlegri launaþróun fyrirfram.