Ef ekki dregur úr verðbólgu verður að hækka stýrivexti frekar, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra. Hann gerði grein fyrir vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans á fundi í Seðlabankanum sem er nýhafinn.

Þetta er í samræmi við það sem fram kemur í Peningamálum Seðlabankans sem kom úr samhliða vaxtaákvörðun. Þar kemur fram að verðbólga hafi reynst erfiðari viðfangs en gert hafi verið ráð fyrir og ekki útli fyrir að verðbólga nái 2,5% markmiðum Seðlabankans fyrr en í lok árs 2014.

Þetta er í samræmi við stýrivaxtaspár greiningardeilda viðskiptabankanna sem segja líkur á að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé komið í skrið og verði stýrivextir hækkaðir fram á næsta ári.

Stýrivextir eru nú 5,5%. Gangi spár greiningardeilda eftir munu vextir liggja í kringum 6% um áramótin og hækka eitthvað eftir það.