Birgir Tjörvi Pétursson, hdl, telur að Seðlabankinn hafi gengið alltof langt í framkvæmd gjaldeyrishaftanna og búið til nýjar reglur sem sé í andstöðu við lögmætisreglur íslensks réttar.

Seðlabankinn hafi þannig í reglum sínum frá því í apríl árið 2010 skilgreint fjármagnshreyfingar milli landa, þannig að þær næðu til fjármagnshreyfinga milli erlendra og innlendra aðila á Íslandi.

Þetta segir Birgir Tjörvi í samtali við Þórð Gunnarsson, blaðamann á Morgunblaðinu.

„Þegar búið er að lýsa því í lögum um gjaldeyrismál að fjármagnshreyfingar í skilningi laganna merki flutning fjármagns milli landa getur hvorki Seðlabankinn né annar handhafi framkvæmdavalds ákveðið með sjálfum sér að það merki líka fjármagnsflutninga úr Austurbænum í Miðbæinn á grundvelli þess að þeir séu milli útlendinga og Íslendinga,“ segir Birgir Tjörvi í samtali við Morgunblaðið.

Birgir Tjörvi telur að bann við viðskiptum með svokallaðar aflandskrónur skorti stoð í lögum og fái ekki staðist. Hann telur að alið hafi verið á ranghugmyndum um stöðu þessara peninga, sem séu oftar en ekki í eigu erlendra aðila á reikningum hjá erlendum fyrirtækjum, en séu í öllum tilvikum geymdir á Íslandi, í íslenskum bönkum.

„Gefið hefur verið ranglega í skyn að þetta séu krónur í útlöndum og að óheimilt sé að flytja þær til landsins nema að fenginni heimild frá Seðlabankanum og að öll viðskipti með þær séu eins konar svartamarkaðsbrask,“ segir Birgir Tjörvi.

Þá segir Birgir Tjörvi að hugtakið „aflandskróna“ hafi enga merkingu í íslenskum lögum.

„Íslensk króna er lögeyrir hér á landi og ætti að vera gjaldgeng hér í viðskiptum samkvæmt íslenskum lögum. Ég fæ ekki séð að heimild sé fyrir því í lögum að skilgreina krónur erlendra aðila í íslenskum bönkum sem aflandskrónur, eins og þær séu ólíkar öðrum íslenskum krónum, og banna svo viðskipti með þær. Það fær ekki staðist þegar reglurnar eru skoðaðar.“