Seðlabanki Íslands hefur gert samning við Landsbanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti sem námu alls sex milljörðum króna. að því er kemur fram annars vegar í frétt á vefsíðu Seðlabankans og hins vegar í tilkynningu frá Landsbankanum.

Í tilkynningu Landsbankans segir að með samningnum og öðrum aðgerðum sem þegar hafi verið gripið til hafi bankinn mætt þeim áhrifum sem útgáfa skilyrta skuldabréfsins til LBI hf. hefur á gjaldeyrisjöfnuð bankans.

Í frétt Seðlabankans segir að bankinn hafi átt í framvirkum gjaldeyrisviðskiptum sem dragi úr gjaldeyrismisvægi í bankakerfinu og létta þrýstingi af krónunnni á komandi mánuðum. Gjaldeyrisforðinn lækkar um þessa sömu fjárhæð, þ.e. sex milljarða króna, á næstu mánuðum. Á móti kemur að það dregur úr söfnun gjaldeyris.

Seðlabankinn segir jafnframt að í kjölfarið á falli viðskiptabankanna í október 2008 hafi misvægi milli erlendra eigna og skulda í efnahagsreikningum ýmissa innlendra fjármálafyrirtækja verið langt umfram æskileg mörk. Þetta misvægi jók áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja og kallaði á aukna eiginfjárbindingu.

„Undir lok ársins 2010 átti Seðlabankinn í gjaldeyrisviðskiptum þar sem bankinn seldi 72,5 milljarða króna gegn gjaldeyri í framvirkum viðskiptum. Þau drógu verulega úr gjaldeyrismisvægi í bankakerfinu á þeim tíma. Samantekið munu þessi viðskipti og þau sem nú eru gerð auka gjaldeyrisforða Seðlabankans á samningstímanum um 75,4 milljarða króna, miðað við núverandi gengi, en viðskiptin tengjast að því leyti að Seðlabankinn er milliliður í því að jafna afgang og halla á milli aðila í kerfinu,“ segir í frétt Seðlabankans. Þar segir einnig að gjaldeyrismisvægi bankanna sé þó ekki veigamesta skýring á veikingu krónunnar á undanförnum mánuðum. Þar vegi þyngra veiking viðskiptakjara og þungar afborganir erlendra lána af hálfu aðila sem ekki hafi aðgang að erlendum lánamörkuðum um þessar mundir.

Þá segir í frétt bankans að samningurinn við Landsbankann muni draga úr þörf á inngripum á næstunni en ekki sé þar með hægt að fullyrða að þau verði óþörf.