Seðlabanki Íslands hefur gert hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum bankans af viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Seðlabankinn hefur vikulega keypt gjaldeyri á markaði frá árinu 2010. Upphaflega keypti hann hálfa milljón evra af hverjum viðskiptavaka en frá júlí 2012 eina milljón evra, sem er um það bil hálfur milljarður króna vikulega.

Gjaldeyriskaup Seðlabankans námu um það bil 20 milljörðum króna í fyrra en bankinn seldi gjaldeyri fyrir 3 milljarða snemma í mars 2012. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um greip Seðlabankinn síðan aftur inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði á síðasta degi ársins með sölu sex milljóna evra.

Í tilkynningunni segir að gengislækkun krónunnar á síðustu vikum ársins hafi verið óæskilega mikla og að uppgreiðsla erlendra skulda einkaaðila hafi veikt krónuna. Því gerir bankinn hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum bankans.