Í Peningamálum Seðlabanka Íslands , sem komu út nú í morgun, er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði um 4,25% á þessu ári í stað 3,25%, líkt og gert hafði verið ráð fyrir í nóvemberspá bankans.

Nýja spáin segir frávikið skýrast fyrst og fremst af horfum um þróttmeiri ferðamannaiðnað og útflutning sjávarafurða en áður var spáð og jákvæðum áhrifum viðskiptakjarabata sem einkum megi rekja til mikillar lækkunar olíuverðs.

„Horfur fyrir næstu tvö ár hafa hins vegar lítið breyst: heldur hægir á hagvexti þegar dregur úr eftirspurnaráhrifum skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda og hægir á vexti fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Spáð er 2¾% hagvexti á hvoru ári fyrir sig,“ segir í spá bankans.

Segir einnig að burðarás hagvaxtarins verði sem fyrr innlend eftirspurn, einkum einkaaðila, sem talið sé að vaxi um liðlega 4% á ári að meðaltali. Gangi spáin eftir verður hagvöxtur að meðaltali um 3% á ári á spátímanum sem er lítillega yfir meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og vel yfir spáðum meðalhagvexti í helstu viðskiptalöndum.