Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag varðandi samninga sem Allianz á Íslandi hefur boðið viðskiptavinum sínum hér á landi. Samkomulagið gerir erlenda tryggingafélaginu og viðskiptavinum þess hér á landi mögulegt að viðhalda óbreyttu samningssambandi og kemur í veg fyrir mögulegt tjón neytenda samhliða því að draga úr neikvæðum áhrifum samninganna á greiðslujöfnuð Íslands.

Til að draga úr neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð Íslands felst í samkomulaginu að tryggingafyrirtæki komi með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við yfir helming framtíðariðgjaldagreiðslna sem fara úr landi á grundvelli núgildandi samninga yfir gildistíma samkomulagsins. Geri tryggingafélag nýja samninga kemur það með til landsins erlendan gjaldeyri til mótvægis við framtíðariðgjaldagreiðslur sem fara úr landi á grundvelli þeirra samninga yfir gildistíma samkomulagsins.

Seðlabankinn kveðst vænta þess að með samkomulaginu verði stigið stórt skref til að eyða þeirri óvissu sem fjöldi neytenda hefur búið við síðustu mánuði, jafnframt því sem stuðlað er að jákvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð landsmanna og þar með auknum stöðugleika í efnahagslífi í landinu.