Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál sem myndi rýmka heimild Seðlabanka Íslands til eftirlits með gjaldeyrishöftunum er gagnrýnt harðlega af Kauphöllinni í umsögn hennar til Alþingis. Þar segir m.a. að til standi að veita Seðlabankanum því sem næst ótakmarkaða heimild til afskipta af einstaklingum og lögaðilum í þeim tilgangi að tryggja eftirlit með gjaldeyrishöftunum. Er sagt frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

„Slíkar ákvarðanir um aðgang að gögnum verða ekki háðar úrskurði dómara og getur Seðlabanki íslands að því er virðist gengið eins harkalega fram og hann kýs hverju sinni,“ segir í umsögninni.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segist ekki trúa því að frumvarpið fari svona í gegn. Ekki sé eðlilegt að veittar séu sömu heimildir til eftirlits eins og gert sé ráð fyrir við rannsóknir á meintum brotum. „Ég held að menn geri sér ekki fyllilega grein fyrir hversu opið þetta er,“ segir hann. Verði frumvarpið samþykkt sé ekki hægt að tala um að hér sé hægt að starfa í eðlilegu viðskiptaumhverfi.