Myntsláttuhagnaður Seðlabankans af nýja 10.000 króna peningaseðlinum sem kynntur var í gær og fer í umferð eftir mánuð nemur 39,9 milljörðum króna.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins úr Seðlabankanum kostar 29 krónur að prenta hvern seðil. Fjórar milljónir seðla voru prentaðar fyrsta kastið eða upp á 40 milljarða króna. Kostnaður við prentunina nam 116,0 milljónum króna. Í útreikningum Viðskiptablaðsins er miðað við að allir seðlarnir séu farnir í umferð og enginn annar kostnaður við prentunina.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri hjá Seðlabankanum, segir í samtali við Viðskiptablaðið myntsláttuhagnað metna stærð og nokkrar skilgreiningar til á honum. Nýprentun sé dýrust í fyrstu og lækki verðið á hvern seðil eftir því sem seðillinn er prentaður oftar.

Fram kemur í Fjármálainnviðum , nýju riti Seðlabankans sem kom út í gær, að Seðlabanki Íslands kaupi seðla sína af breska fyrirtækinu De La Rue. Fyrirtækið og forveri þess, Bradbury Wilkinson & Co. Ltd., hafa prentað seðla fyrir Ísland í um 83 ár. Að jafnaði kaupir Seðlabankinn um 6 milljónir seðla á ári með mismunandi ákvæðisverði.

Íslensk mynt er svo slegin hjá breska fyrirtækinu Royal Mint Ltd., sem hefur framleitt mynt fyrir Ísland frá árinu 1940. Að jafnaði kaupir Seðlabankinn um 7 milljónir stykkja af mynt á hverju ári.

Óðinn, fastur dálkahöfundur í Viðskiptablaðinu, fjallaði um myntsláttuhagnað í fyrra.