Seðlabankinn áætlar að vaxtagreiðslur af gjaldeyrislánum ríkissjóðs og bankans muni nema 33 milljörðum króna á þessu ári. Á móti koma vaxtagreiðslur vegna ávöxtunar forðans.

Seðlabankinn greindi frá því morgun að hann hafi fullnýtt lánin frá Norðurlöndunum sem samið var um í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Heildarlánveitingar Íslands nema nú 753 milljörðum króna í því skyni að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Forðinn nemur nú í heildina 1.030 milljörðum króna og er hann allur skuldsettur.

Áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir því að hreinn vaxtakostnaður af forðanum verði um 3% til 4%. Miðað við heildarforðann getur vaxtakostnaðurinn numið á bilinu 30,9 til 41,2 milljörðum króna.