Seðlabankinn greip inn í á gjaldeyrismarkaði í gær. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Seðlabankinn hafa keypt krónur fyrir sex milljónir evra, eða um einn milljarð króna.

Inngripin virðast hafa haft tilætluð áhrif í gær því gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,21% í gær, sem þýðir að krónan hafi styrkst. Gengisvísitalan endaði í 231,93 stigum í gær, en hefur hækkað eilítið það sem af er degi, eða um 0,06% þannig að styrking krónunnar hefur að einhverju leyti gengið til baka. Veikingin í dag er öllu meiri þegar miðað er við gengi evru, en krónan hefur veikst um 0,23% gagnvart evru í dag.