Seðlabankinn keypti krónur á gjaldeyrismarkaði á föstudaginn fyrir sex milljónir evra og eru þessi kaup til viðbótar við þau 12 milljón evra kaup sem Seðlabankinn stundaði á fimmtudaginn. Á fimmtudaginn styrktist krónan nokkuð við inngrip seðlabankans, en á föstudaginn stóð gengið nokkurn veginn í stað ef miðað er við gengisvísitölu þrátt fyrir inngripin.

Reyndar veiktist krónan gagnvart evru á föstudaginn, var í 171,84 krónum við lok viðskipta á fimmtudag, en var degi síðar komið í 172,48 krónur. Síðan þá hefur krónan styrkst á móti evru og endaði í gær í 171,59 krónum.

Þessi sex milljón evra inngrip eru jafnstór og inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á gamlársdag. Hin umfangsmeiri 12 milljón evra inngrip daginn áður voru hins vegar jafnstór og inngrip bankans á markaði í mars í fyrra.