Í nýliðnum ágústmánuði veiktist krónan um 2,5% gagnvart evrunni og 1,1% gagnvart Bandaríkjadal. Velta á gjaldeyrismarkaði nam 32,5 milljörðum króna þar sem hlutdeild Seðlabankans var 15,6 milljarðar króna eða 48%. Frá þessu er greint í hagsjá Landsbankans.

Alls greip Seðlabankinn átta sinnum inn í á gjaldeyrismarkaði í mánuðinum. Öll skiptin seldi hann gjaldeyri og keypti krónu og námu viðskiptin 15,6 milljörðum króna, eða 96 milljónum evra.

Sjá einnig: Hægst hefur á inngripum Seðlabankans

Flöktið á krónunni gagnvart evru nam 2,6% í ágúst en að meðaltali nam það 6,5% á mánuði síðustu tólf mánuði.

Gjaldeyrisforðinn hefur stækkað um 142 milljarða það sem af er ári, þrátt fyrir sölu SB á gjaldeyri. Þróunin skýrist hvað helst af gengis- og verðbreytingu en í evrum talið hefur hann lítið breyst frá áramótum.