Seðlabankinn hefur á ný gripið inn í á gjaldeyrismarkaði og það sem af er degi hefur hann keypt íslenskar krónur fyrir sex milljónir evra, andvirði um eins milljarðs króna. Er það sama fjárhæð og Seðlabankinn keypti krónur fyrir á gamlársdag.

Gengi krónunnar gagnvart evru hefur veikst um 2,6% það sem af er ári. Hver evra kostaði í gær 174 krónur og hefur ekki verið dýrari síðan í mars 2010. Seðlabankinn greip síðast inn í á gjaldeyrismarkaði á gamlársdag eftir aðra lækkunarhrinu í desember og líkt og í dag . Þá nálgaðist gengi evrunnar 170 krónur og velti greiningardeild Arion banka upp þeirri spurningu hvort Seðlabankinn hafi tilhneigingu til þess að grípa til aðgerða þegar virði nálgast 170 evra múrinn.

Á þeim tíma sagði Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, að veikingin í desember tengdist að verulegu leyti tímabundnum þáttum sem rekja mætti til áramótastöðu fjármálafyrirtækja. Eins og áður segir hefur krónan hins vegar haldið áfram að lækka frá áramótum og nú grípur Seðlabankinn aftur inn í.

Nánar er fjallað um stöðu krónunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.