Gull Seðlabanka Íslands var að verðmæti um 12,2 milljörðum króna í lok síðasta árs. Aukningin á árinu nam nærri 2 milljörðum króna en verðmæti gullsins var um 10,4 milljarðar í byrjun árs 2011. Þetta má sjá í hagtölum bankans um efnahag Seðlabankans.

Erlendar eignir bankans nema alls um 1.050 milljörðum króna og jukust um 383 milljarða á árinu sem leið. Mest er á innlánsreikningum í erlendum bönkum, eða um 674 milljarðar. Um 272 milljarðar liggja í erlendum verðbréfum. Heildareignir bankans, ef frá eru taldar eignir Eignasafns Seðlabankans (ESÍ), nema um 1.255 milljörðum króna.