Hagvöxtur hér á landi verður 3,6% í ár líkt og í fyrra gangi spá Seðlabanka Íslands eftir sem birt var í Peningamálum í morgun . Spáin hækkar um 0,3 prósentustig frá spá Seðlabankans í maí.

Útlit er fyrir hægari vöxt ferðaþjónustu í ár en spáð var í maí en á móti vegur töluvert meiri vöxtur í útflutningi sjávarafurða. Horfur eru því á meiri vexti útflutnings sem vegur á móti lakari horfum um þróun viðskiptakjara.

Hækkun hagvaxtarspárinnar er sögð skýrast af hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta en á móti vegi hægari vöxtur þjóðarútgjalda.

Líkt og í fyrri spám bankans er talið að heldur hægi á hagvexti á næstu tveimur árum og að hann verði 2,7% á næsta ári en aukist lítillega árið 2020 og verði 3%. Hægt hafi á fjölgun heildarvinnustunda og innflutningur vinnuafls virðist hafa náð hámarki þó hann sé enn kröftugur.

Þá hafi árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mælst 2,9% á öðrum fjórðungi ársins og fyrirtæki sem eigi í vandræðum með að ráða starfsfólk eða mæta óvæntri eftirspurn fækki. Því virðist heldur hafa dregið úr spennu á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum.

Spá 3% verðbólgu i ár

Verðbólga mældist 2,7% í júlí og hafði hækkað um nærri heilt prósentustig frá sama tíma í fyrra. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig aukist nokkuð og mældist 2,9% í júlí miðað við miðgildi mismunandi mælikvarða. Þá hafa verðbólguvæntingar einnig hækkað, bæði til skamms og langs tíma.

Seðlabankinn býst við að verðbólga hækki í 2,8% á þriðja fjórðungi þessa árs og í um 3% á síðasta ársfjórðungi ársins. Verðbólga haldist nálægt 3% þegar Seðlabankinn spáir því að hún taki að lækka á ný.