Seðlabanki Íslands braut, að mati kærunefndar jafnréttismála, jafnréttislög þegar Stefán Rafn Sigurbjörnsson var ráðinn í stöðu upplýsingafulltrúa bankans síðastliðið sumar. Það var dagskrárgerðar- og blaðamaðurinn Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir sem kærði ráðninguna.

Í úrskurði kærunefndarinnar segir að nægar líkur hafi verið leiddar að því að Gunnhildi hafi verið mismunað á grundvelli kyns er ráðið var í stöðu upplýsingafulltrúa. Jafnframt hafi Seðlabankinn ekki sýnt fram á að Stefán hafi staðið Gunnhildi framar við ráðningu í starfið.