Seðlabankinn hagnaðist um rúma 14 milljarða króna í fyrra. Ári fyrr tapaði bankinn 13 milljörðum króna. Fram kemur í ársuppgjöri Seðlabankans sem birt var í tilefni af ársfundi bankans sem nú stendur yfir, að viðsnúningurinn skýrist einkum af auknum vaxtatekjum, lækkuðum vaxtagjöldum og jákvæðum gengismun.

Fram kemur í uppgjörinu að vaxtatekjur jukust um ríflega 12 milljarða króna á milli ára. Það er 25% aukning. Einnig drógust vaxtagjöld saman um rúma 8 milljarða króna, 23,4% frá fyrra ári. Gengismunur var jákvæður um 7,5 milljarða króna.

Aðrar rekstrartekjur breyttust lítið milli ára en önnur rekstrargjöld hækkuðu um tæplega fjóra milljarða. Þar munar mestu um virðisrýrnun krafna sem nemur rúmlega tveimur og hálfum milljarði og annan rekstrarkostnað sem hækkar um nær hálfan milljarð vegna kostnaðar við rekstur á greiðslukerfum í eigu dótturfélaga Seðlabankans.

Efnahagsreikningur Seðlabankans stækkaði um rúm 23% milli ára í fyrra.

Eignastaðan hækkaði um 303 milljarða króna en skuldir jukust um 289 milljarða. Eignir umfram skuldir, eigið fé bankans, stóð því í rúmum 83 milljörðum króna um áramótin síðustu.

Fram kom í máli Láru V. Júlíusdóttur, formanns bankaráðs Seðlabankans, á fundinum að aukið umfang efnahagsreikningsins helgist einkum af tvennu; auknum lántökum og innstæðum annarra aðila en fjármálastofnana hjá bankanum.

Í fyrra nam ádráttur lána hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og norska seðlabankanum um 148 milljörðum króna. Lánin eru varðveitt sem hluti af gjaldeyrisforða í vörslu Seðlabankans. Innstæður annarra aðila jukust um ríflega 246 milljarða króna, sem er aukning um nær 40%.

Aukning á gjaldeyrisreikningum ríkissjóðs skýrist einkum af skuldabréfaútgáfu Ríkissjóðs Íslands í júní 2011 og einnig vegna ádráttar á Norðurlandalánum sem var lagður inn á gjaldeyrisreikninga hjá Seðlabankanum.

Þá kom fram í máli Láru að Seðlabankinn greiði átta og hálfan milljarð króna til ríkisins í formi tekjuskatts og í arð samkvæmt reglum um framlag til ríkisjóðs. Því til viðbótar greiðir bankinn hagnað vegna gjaldeyrisútboða, sem nam einum milljarði að meðtöldu útboði í febrúar. Samkvæmt dagskrá verða fleiri útboð haldin á þessu ári.

Alls mun Seðlabankinn því greiða um níu og hálfan milljarð króna í ríkissjóð.